MÉR VARÐ Á Í MESSUNNI

  Þegar ég ályktaði þannig að Framsókn hefði farið fram úr sér og öllum öðrum í því að lofa yfirskuldsettum heimilum stórlækkun skulda sinna og ábyrgða, varð mér á í messunni. Sjálfstæðisflokkurinn gekk í liðið. Nú er verið að möndla um hvernig flokkarnir saman snúi sig út úr þessu. Sjáum til.

  Á meðan bíð ég með öllum hinum gamlingjunum og öryrkjunum eftir því að Bjarni Ben. efni loforð sitt sem hann sendi okkur í bréfi hverju fyrir sig um að ef við kysum hann og flokkinn hans, yrðu kjör okkar sem hafa verið skert síðan 2009 færð til nútímans og okkur bættur skaðinn. Ég skildi bréfið þannig.

  Núna er ég eins og annað fólk í svipaðri stöðu að lepja dauðann úr skel.


ÞVÆTTINGAR

  Af og til lít ég inn hjá jonas.is, Útvarpi Sögu og fleiri skáld- og sögusmettum. Þá í þeim tilgangi að kanna hvort þetta lið hafi séð sig um hönd og látið af eða bara létt á áreiti sínu í garð réttmætrar og heiðarlegrar umræðu. Þetta lið er óslitið sjúkt af ranghugmyndum og fordómum, það elur á úlfúð.

  Sem betur fer verð ég ekki var við mikinn áhuga á þessu liði. En það gæti haft sín áhrif, er smitberar. Ótrúlegt að fólk leggi sig niður við þessa afbökun á jafn klikkuðum nótum.


FRAMSÓKN Á FLIPPI

  Allir sem eru læsir og fylgjast þokkalega með vita að kosningaloforð Framsóknarflokksins um stórfelldar lækkanir húsnæðisskulda er tóm tjara. Það er vísað á uppgjör vegna snjóhengju, sem enginn veit hvenær fellur.

  Þetta er svo mikil della að ótrúlegt er að jafnvel framsóknarmenn leggi traust sitt á hana. Þeir sem Framsókn vill að borgi brúsann eru ekki á flótta frá hærri vöxtum en þeir fá annars staðar, þeim liggur ekkert á.

  Æ vesalings Framsókn, örfáum gagnast tilfæringarnar sem hún leggur til, ef hreinlega nokkrum þegar á hólminn kemur og dæmið verður gert upp. En það sem er í gangi er sem sagt að Framsókn er á flippi.


PÉTUR Í HLUTVERKI POSTULA

  Útvarp Saga er ótrúlega ruglaður fjölmiðill. Þar er sitt hvað nýtilegt og gagnlegt. En þar á móti er þessi stöð notuð af eiganda sínum og meðstjórnanda eins og trúboð eigin skoðana. Sá hluti af dagskrá sem þau Arnþrúður og Pétur stjórna sjálf eru trúboð þeirra.

  Trúboð vegna skoðana þeirra og núna síðast eigin stjórnmálaflokks!! Þetta er mátuleg lending eftir allt ruglið sem Pétur einkum hefur hellt yfir viðmælendur sína, sem hann kaffærir æ oní æ með vaðli sínum og fullyrðingum. Hann er mikill platpostuli, en með sína hirð.


LESIÐ ENDILEGA HROKAKJAFTINN JÓNAS.IS

  Hrokafyllsti bloggari hér á landi, sem fjallar um þjóðmál, er Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri. Hann skrifar nokkra stutta pistla á eigin vef dags daglega og leyfir engin svör þar. Frá jafn lífsreyndum manni er ótrúlega dapurlegt að lesa sýn hans og palladóma út og suður.

  Ein nýjasta perlan frá Jónasi: "Þótt ég hafi oft talað illa um Íslendinga, hef ég vanmetið ótrúlega heimsku fólks í pólitík og fjármálum og skort þess á mannþekkingu." Ef þið viljið kynnast þessu villidýri í mannsmynd frekar er vefurinn sem sagt jonas.is.


BJARNI ER ENNÞÁ SKOTSPÓNN

  Atburðir frá því á fimmtudagskvöld og þar til í dag í framboðssögu Sjálfstæðisflokksins hagga því ekki að Bjarni Benediktsson hefur ekki náð að sætta almenning við hann sem meintan sakamann í vafningi og N!.

  Hann hefur líklega fengið aflausn hjá einhverjum samflokksmönnum fyrir einlægni, auðvitað hans eigin liði í Garðabænum. En það dregur skammt til þess að flokkurinn nái vopnum sínum. Stefnan er enn óljós og ómarkviss!!!

  Þetta tvennt, að Bjarni hefur ekki hirt um að útskýra viðskiptasögu sína frá a til ö í fullri hreinskini, að hreinsa sig á þeim vettvangi, og að forystu flokksins undir forystu hans, hefur mistekist til að rétta kúrs landsfundar.


LÝÐRÆÐISVAKTIN AÐ BROTNA NIÐUR

  Þessar mörgu nýju framboðshugmyndir sem hafa verið kynntar munu fæstar eiga sér langa lífdaga. En þær eru til marks um leitandi fólk, alls konar fólk, sem er ósátt við stöðu sína og leiðtoga þjóðarinnar. Þetta er ekki ný staða, pólitíkin gengur í bylgjum eins og veðrið.

  Liljuframaboðið sam var fagnað í upphafi koðnaði niður og nú er svipað að koma yfir Þorvaldarframboðið, sem hefur varla mælst enn með fylgi en sumir héldu að næði flugi með birtingu framboðslista og stefnu. Aðeins hafa verið birt sex efstu nöfn á tveim listum, í Reykjavík.

  Og flóttinn er hafinn þar með! Aðeins rúmlega þúsund manns hafa skráð sig sem vinveitta á heimasíðunni xlvaktin.is, þar sem örfáir hafa enn tjáð sig og eru aðallega ekki hrifnir af fyrstu skrefum við mótun framboða - og hóta úrsögnum. Vaktin er strax komin í öndunarvél ...


ALÞINGI Í EILÍFU UPPNÁMI

  Jafnvel reyndir fréttamann býsnast yfir því í allan dag að á dagskrá Alþingis séu 41 mál, sem þeir sem þekkja söguna vita að er alvanalegt. Allt er í uppnámi, sem er líka alvanalegt! Þingmenn skiptast á skotum og þess vegna sprengjum, sem er ennfremur alvanalegt.

  Ég hef fylgst með pólitíkinni síðan ég man eftir mér og er núna 72ja. Var þátttakandi um tíma og seinna einnig um tíma sem blaðamaður í því að fylgjast með stjórnmálum og flytja fréttir meðal annars frá Alþingi í einn vetur. Það var fyrir rúmlega 30 árum.

  Umgerð Alþingis hefur breyst mikið, úr þrem deildum í eina, en vinnulagið er það sama, það er dólað lengst af en síðan er allt í hers höndum undir jól og undir vor! Tala ekki um undir þingkosningar, eins og einmitt núna. Þessi vinnustaður þarf sárlega áfallahjálp.

  En fyrst og fremst að komast til meiri þroska í veruleika og vinnu.


ÞARF FREKAR VITNANNA VIÐ?

  Sjálfstæðisflokkurinn hrapar áfram undir forystu Bjarna Benediktssonar og í kjölfar landsfundar flokksins, sem var flippuð samkoma og í engum tengslum við þjóðarsálina. Sorgleg staða flokksins, sem á sér traustan grunn og frækilega sögu á sínum tíma, en hefur villst af leið og tapað jarðsambandinu við sína nánustu, hvað þá fjöldann sem ræður.

  Það þykir sannarlega saga til næsta bæjar, að Framsóknarflokkurinn sé orðinn jafn stór og jafnvel stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í könnunum, nokkrum vikum fyrir þingkosningar. Forysta flokksins reynir að telja fólki trú um að hún tali skýrt um betri framtíð og bættan hag heimila og atvinnulífs. Leiklistardómarnir falla hver af öðrum, í könnunum: Þið eruð á villigötum!


BJARNI Í NAUÐVÖRN EFTIR AXARSKAFTIÐ

  Það mætti halda að ég væri sérstakur áhugamaður um Bjarna Benediktsson núverandi formann Sjálfstæðisflokksins. En svo er ekki, ég hef hins vegar áhuga á gengi sjálfstæðisstefnunar, sem ég aðhylltist og bar fyrir brjósti fyrir og um sjöunda áratug síðustu aldar.

  Flokkurinn er kominn á flótta, í vörn, eftir landsfundinn um daginn, þegar Bjarni gaf ekki eftir formennskuna, þótt allar bjöllur klingdu á hann. Og svo fór stefna flokksins í handaskolum, er útvötnuð og ótrúverðug. Fylgið hrapar um fjórðung í könnunum, sem segir sína sögu.

  Þessa dagana er flokkurinn að verja miklu fé í auglýsingar í fjölmiðlum til þess að réttlæta sig í hugum kjósenda. En hefði átt að horfa á ókeypis fregnir dag eftir dag frá sigurvænlegri forystu með ferska vinda í seglunum. Þetta er dapurleg frammistaða og endar illa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband