Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

GAGNBYLTING HAFIN Í BORGARTÚNI

   Í mínum huga hefur það verið og er æðsta boðorð umferðarskipulags að það sé einfalt og auðskilið. Að þeir sem eru í umferðinni séu ekki sífellt að rekast á eitthvað óvænt, sem þarf að bregðast við skyndilega eða í tíma og ótíma.

   En þetta viðhorf á greinilega erfitt uppdráttar eða því er hafnað hjá ríkinu en þó sérstaklega sveitarfélögunum. Allt á Íslandi sem talið hefur verið óteljandi hverfur í rykmekki af fjölbreytni umferðarskipulagins.

   Þar ægir öllu saman í frágangi vega og gatna, merkinga, hraðahindrana, gangbrauta og bara svo framvegis. Þetta er skipulegt kaos, sem útilokað er að nokkur geti verið stoltur af, eftir á að hyggja.

   Síðustu misseri hafa stjórnendur höfuðborgarinnar brugðið á leik við að stokka upp vissar götur í almennt óljósum tilgangi, alla vega hvað varðar hag borgaranna og þeirra sem þurfa að rækja erindi sín.

    Hofsvallagatan og Snorrabrautin eru í uppnámi, hvor á sinn hátt, Borgartúnið sem gata er eiginlega að lenda í umferðaröngviti. Hringtorgið sem nú er verið að sneyða niður boðar vonandi upphaf gagnbyltingar!

  

 


ENN HUNDRUÐ MILLJÓNA Í LANDKYNNINGU

   Á meðan landið fyllist af erlendum ferðamönnum er enn varið hundruðum milljóna króna í landkynningu, eins og ekkert hafi í skorist. Nú á loksins að verja álíka fé í bráðaviðbrögð við því að landið ber ekki lengur þetta gullæði bótalaust. Og er þetta í alvöru gull sem glóir?

   Ferðaþjónustan er ekki hátekjugrein, nema hvað? Sumir fleyta rjómann, aðrir lepja undanrennuna. Þeir eru ekki bara margir, heldur flestir. Svo er enn einn hópurinn sem leikur tveim skjöldum. Er ófeiminn við að gera út á gullæðið en kemur sér hjá að segja skattinum frá því.

   Að svo stöddu væri heppilegra að verja minna fjármagni í landkynningu en meira í að verja og bæta landið sem ferðamennirnir vilja njóta, og að kenna þeim sem starfa í ferðaþjónustunni réttar leikreglur. Þeim sem kunna þær ekki. Eina algilda mælingin á árangur er orðsporið.

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband